Hugvekja

Sunnudagsmorgun, kaffið komið á könnuna, og ég er að raða leirtauinu í vélina. Klukkan er ekki nema 9 að morgni og ég er klæddur og kominn á ról án nokkurs þrýstings, búinn að borða morgunamatinn og allt, fór meir að segja út að skokka með vandamönnum í gær fyrir hádegi. Hvað er að gerast, er ég að verða fullorðinn? Held samt ekki. Man reyndar eftir því þegar ég var kallaðu "kall" af einhverjum krökkum í fyrsta skiptið fyrir allmörgum árum. En ég var nú spurður um skilríki í ríkinu fyrir hálfu ári síðan svo það getur ekki verið að ég sé fullorðinn. En það að vera fullorðinn er ekki endilega útlitslegt, heldur meira hvernig maður hagar sér. Mamma og pabbi hafa alltaf verið fullorðin, þegar ég var 7 ára voru mamma ekki nema 29 ár, pabbi 33 ára , yngir enn ég er í dag, en samt bullandi fullorðin, að mér fannst í það minnsta.
Hér eru nokkrir vísbendingar þess að maður sé að fullorðnast:
-Maður tekur fyrsta bílastæðið á planinu sem maður sér, þó það sé óralangt í burtu frá versluninni.
-Útvarpsstöðin sem þú hlustar á er Rás 1(gufan) eða það er bara slökkt á tækinu í bílnum, nema þegar fréttir eru þá má hækka allt upp úr öllu valdi.
-Maður er hættur að geta sofið út og fer snemma í háttinn.
-Maður borðar brauðsneiðar af sitthvorri gerðinni og leggur þær saman í samloku án þess að velta því fyrir sér. osfrv...
Líklega er nú ómögulegt að segja hvenær maður hefur fullorðnast. En af mannfræðirannsóknum mínum í gegnum árin held ég að niðurstöðuna sé að finna í tímanum. Í dag líður ein vika nánast eins og um nokkra klukkutíma sé að ræða. Atburðir sem áttu sér stað fyrir mörgum árum finnast manni eins og hafi gerst í síðasta mánuði. Tíminn líður hratt... og allir þekkja restina, í það minnst þeir sem eru orðnir fullorðnir.