sunnudagur, nóvember 05, 2006

Sumarbústaður

Jú ég fór í sumarbústað um helgina sem var bara ágætt, brjálað veður og allt það.

Eftir hádegið í gær rölti ég að bílnum okkar sem var þarna á stæði ekki svo langt frá. Þar ætlaði ég að ná mér í gönguskóna því við ætluðum nú aldeilis í smá göngutúr. Ég skondra þarna niðureftir, veður var fallegt, hafði lægt heldur betur frá nóttinni áður. Ég er kominn að bílnum, opna skottið, ætla mér að seilast eftir skónum en rek mig í bréfpoka þarna í skottinu sem lá á hliðinni en hann var fullur af gömlum fötum. Nei nei hvað haldiði, kemur ekki hin fallegasta hagamús í ljós, og það aftan í skottinu á bílnum mínum!!! Þarna stóðum við, ég og músin, horfðumst í augu og bæði alveg frosin.

Hvað átti ég til bragðs að taka. Það var tvennt í stöðunni, reyna að ná óargardýrinu með berum höndunum eða leggja á flótta?? Ég gerði hvorugt, var með myndavélina um hálsin en hafði aungva hugsun á því að taka mynd, svo nálægt dauðanum. Ég samt í einhverju fáti og verkkvíða hreyfi mig í átt að skottinu og músin var ekki lengi að skjótast undir coverið í skottinu og niður til varadekksins. Ívar og Helga grömsuðu svo þarna mjög spennt við að sjá þennan vágest, en hann komst ekki í leitirnar.

Meira veit ég ekki um ferðir hennar en vona að hún hafi bara komist út í náttúruna, annars er hún þá kominn til byggða og hittir feita gráa-hverfiskattarhlunkinn hérna fljótlega og hann verður örugglega fljótari í hugsun en ég var, en við erum reyndar álíka silalegir í hreyfingum.

1 Comments:

Blogger Bjarney Halldórsdóttir said...

Þær eru ótrúlega krúttlegar þessar mýs. Man eftir að hafa séð eina trítla yfir stofugólfið á Kópó einhvern jóladaginn þegar ég var minni.

1:30 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home